Málstefna Undralands
Málstefna Leikskólans Undralands byggir á ákvæðum Aðalnámskrár leikskóla og laga um leikskóla nr. 90/2008, þar sem kveðið er á um að leikskóli skuli stuðla að alhliða þroska barna, meðal annars með því að efla tjáningu, samskipti og skilning. Íslenskan er aðalmál og samskiptamál leikskólans í daglegu starfi, námi og leik. Með markvissri málrækt er stuðlað að því að börn verði virkir þátttakendur í íslensku samfélagi og þrói jákvætt viðhorf til tungumálsins og menningararfsins sem því fylgir.
Málstefna Leikskólans Undralands hefur það að meginmarkmiði að:
Efla íslensku sem lifandi og fjölbreytt samskiptamál leikskólans.
Málumhverfi og starfshættir
Leikskólinn Undraland leggur áherslu á að íslenskan sé notuð í öllu daglegu starfi. Málnotkun á sér stað í öllum aðstæðum – í leik, samveru, sögum, söng, útivist og verkefnum. Starfsfólk leikskólans er meðvitað um að það sé fyrirmynd í málnotkun og vinnur markvisst að því að nota fjölbreyttan orðaforða, tala skýrt og skapa umhverfi sem ýtir undir samskipti. Börnum gefst kostur á að kynnast bókum, ljóðum, sögum og orðaleikjum sem auka orðaforða og málskilning.
Í leikskólanum er lögð áhersla á;
• að börn fái tíma og tækifæri til tjáningar
• að hlustað sé á börnin og tekið mark á orðum þeirra
• að málþroski sé efldur í gegnum leik og skapandi starf
• að sjónrænt og hljóðrænt málumhverfi styðji við málrækt, t.d. með myndum, bókaspjöldum, nöfnum og merkingum í umhverfi barnsins
Fjöltyngi og málstuðningur
Leikskólinn Undraland sýnir virðingu fyrir fjöltyngi og menningarlegum bakgrunni allra barna. Börn sem hafa annað heimamál en íslensku er veittur stuðningur við að tileinka sér íslensku samhliða því að þau eru hvött til að viðhalda og rækta eigið heimamál.
Viðhorf leikskólans er að fjöltyngi sé auðlind sem styrki sjálfsmynd barna og auki skilning allra á menningarlegri fjölbreytni.
