Dagskipulagið
Dagskipulagið á að einkennast af frjálsum leik
- Leikurinn er aðalnámsleið barnsins
- Læra samskipti
- Bera virðingu fyrir því sem aðrir gera
- Máta reynslu sína við annarra
- Læra af öðrum
- Kennarar nota opnar spurningar í leik, hvað, hvernig, hvers vegna?
- Frjáls aðgangur að leikefni og læsishvetjandi efnivið
- Fjölbreytt leikefni sem reynir á fjölbreytta þroskaþætti, blöð, blýanta, liti, skæri og bækur.
- Skipulagðar stundir á hverjum degi þar sem er oft ákveðin innlögn í upphafi stundar eða farið yfir eitthvað ákveðið efni hverju sinni.
- Lubbastundir -málörvun, hópastarf, myndlist og sköpun, hreyfing, útikennsla, Vináttustundir með Blæ, samverustundir, lestur, hvíld og fleira

Nánar um dagskipulagið
Frjáls leikur…
Íþróttir
Deildirnar fara einu sinni í viku í íþróttahúsið þar sem markviss hreyfiþjálfun er hluti af daglegu starfi leikskólans. Í samræmi við áherslur Aðalnámskrá leikskóla(2011) um að efla heilsu, vellíðan, hreyfiþroska og virkni barna, er lögð áhersla á fjölbreytta hreyfingu sem styður við líkamlegan og félagslegan þroska.
Yngsta deildin vinnur með grunnþættina í hreyfiþroska, svo sem klifur, jafnvægi og boltaleiki, þar sem áhersla er á að efla sjálfstæði, styrk og grunnfærni á forsendum hvers barns.
Fernando, íþróttakennari, leiðir hreyfistundir eldri deildanna og skipuleggur verkefni sem efla grófhreyfingar, samhæfingu og rýmisskyn. Börnin taka þátt í hreyfileikjum með reglum, til dæmis stórfiskaleik og krókódíll, krókódíll, þar sem þau læra að fylgja leiðbeiningum, vinna með öðrum og tileinka sér einbeitingu og sjálfstjórn.
Auk þess fara þau í þrautabrautir með fjölbreyttum hreyfiáskorunum á borð við klifur, hopp og jafnvægisverkefni. Tíminn endar á teygju- og slökunaræfingum sem kenna börnunum líkamsvitund og stuðla að ró eftir áreynslu.
Hreyfistundir í íþróttahúsinu eru þannig mikilvægur hluti af daglegu starfi leikskólans og styðja við heildrænan þroska barna á öllum aldri.
Útikennsla
Hópastarf
HandbókHópastarf í leikskólum snýst um að börn vinni saman í minni hópum undir leiðsögn kennara til að þróa félagsfærni, sjálfstæði, skapandi hugsun og nám.
Við mælum með að lesa um hópastarfið í Undralandi í handbók leikskólans.
Lubbi finnur málbein
Í Lubbi finnur málbein eru íslensk málhljóð kynnt sem „málbein“ sem Lubbi, íslenskur fjárhundur, þarf að finna og naga til að bæta framburð sinn. Hvert málhljóð er tengt við táknræna hreyfingu, stutta sögu og skemmtilega vísu. Þessi nálgun hjálpar börnum að tengja saman hljóð og bókstafi á skemmtilegan og áhrifaríkan hátt. Með því að sjá, heyra og framkvæma hreyfingar tengdar hljóðum styrkjast tengslin milli sjón-, heyrn- og snertiskyns og málþroska. Þetta skapar einnig tengingu milli hljóða og bókstafa og er lykilatriði fyrir lestrarnám og ritun síðar á lífsleiðinni.
Lubbi finnur málbein sameinar leik, tónlist og hreyfingu og gerir námferlið bæði skemmtilegt og áhrifaríkt. Námsefnið styrkir einnig sjálfstraust barnanna í að tjá sig, bæði í leik og í daglegum samskiptum sem leggur þannig grunn að góðri mál- og lestrarfærni.
Vináttuverkefnið Blær
Vináttuverkefnið Blær er forvarnarverkefni frá Barnaheillum sem miðar að því að stuðla að jákvæðum samskiptum, góðum skólabrag og koma í veg fyrir einelti í leik- og grunnskólum. Verkefnið byggir á fjórum gildum: virðingu, umhyggju, hugrekki og umburðarlyndi.
Bangsinn Blær er táknmynd vináttunnar í verkefninu og með klípusögum, umræðum, nuddi, söng og leikjum læra börnin um gildi vináttu með aðstoð frá Blæ. Hvert og eitt barn fær lítinn bangsa sem táknar samfélag vináttu.
Tákn með tali
Tákn með tali er boðskiptaleið sem er hægt að nota með börnum á öllum aldri, TMT er verkfæri sem leggur áherslu á að nota tákn samhliða tali til að efla skilning og tjáningu þegar börn eiga í erfiðleikum með munnlega tjáningu. TMT minnkar pirring barnsins yfir að geta ekki tjáð sig og auðveldar barninu að gera sig skiljanlegt. Með aðstoð TMT byggist upp orðaforði, félagsfærni eykst, hreyfifærni verður betri og setningar lengjast. Sérstök áhersla er á notkun náttúrulegra og myndrænna tákna sem eru hlutlæg og því er auðveldara fyrir barnið að skilja hvað átt er við. Notkun tákna með tali hægir á tali fullorðinna og setningar verða styttri og hnitmiðaðri. Útfærsla tákna tekur mið af taltakti þannig að öll atkvæði komist til skila. Taltaktur ýtir undir myndun málhljóða og skýrari framburð. Notkun TMT hefur í för með sér meiri og markvissari boðskipti, eflir sjálfstæði og lífsgæði aukast.
http://tmt.is/
Bína Bálreiða
Öllum börnum leikskólans eru kenndar svokallaðar boðskiptareglur Bínu, en þær hjálpa börnum að eiga viðeigandi boðskipti sem er mjög mikilvægur þáttur í þeirra námi. Reglurnar eru sýnilegar börnunum á myndrænu formi inni á deildum og eru ávallt rifjaðar upp í hópastarfi, samverustundum og í söngstund. Reglurnar eru eftirfarandi: Að sitja kyrr, hlusta, passa hendur, bíða, skiptast á og muna.
