Velkomin í leikskólann

Leikskólinn Undraland hefur verið starfræktur síðan árið 1982, en í desember 2003 var núverandi húsnæði tekið í notkun.

Saga Undralands

Það var í byrjun árs 1982 að áhugi vaknaði fyrir því að koma á fót leikskóla á Flúðum. Tilgangur leikskólans yrði sá að börnin fengju tækifæri til að kynnast öðrum börnum áður en þau byrjuðu í Flúðaskóla. Sveitarfélagið veitti styrk til tækjakaupa og þar með var kominn grunnur að leikskólanum. Frumkvöðlar að stofnun leikskólans voru Anna María Sigurðardóttir, Valdís Magnúsdóttir og Anna Marý Snorradóttir. Foreldrar ráku leikskólann til ársins 1990 en þá yfirtók sveitarfélagið rekstur hans. Þá var ráðinn fyrsti menntaði leikskólakennarinn en það var Hanna Málmfríður Harðardóttir. Jafnframt var opnunartími leikskólans lengdur og var hann opinn fyrir og eftir hádegi alla virka daga vikunnar. Leikskólinn flakkaði á milli fimm bráðabirgða húsnæða en í desember 2003 flutti leikskólinn í núverandi húsnæði. Leikskólinn er þriggja deilda, fyrir börn á aldrinum 18 mánaða til 6 ára. Eldhúsið okkar er móttökueldhús og fáum við mat frá Flúðaskóla. Okkar nánasta umhverfi býður börnum og starfsfólki uppá óþrjótandi verkefni.

Leikskólinn nýtur góðs af einstaklega fallegu umhverfi, góðu útinámssvæði og hinni rómuðu veðursæld á Flúðum. 

Gildin okkar

Umhverfi-Umhyggja

endurspegla þá sýn að nám og vellíðan barna spretti bæði úr tengslum við náttúruna og hlýju, umhyggjusömu samfélagi. Með Umhverfi er lögð áhersla á að nýta nánasta umhverfi leikskólans og sveitarinnar sem lifandi námsvettvang þar sem börn fá að kanna, læra og skapa í gegnum reynslu og leik. Umhyggja táknar að börnin séu ætíð í fyrirrúmi; að þau upplifi öryggi, virðingu og kærleika og fái að vaxa í umhverfi þar sem hlustað er á þau og þarfir þeirra teknar alvarlega. Saman skapa gildin sterkan grunn fyrir samkennd, samfélagsvitund og ánægjulegt nám.

Leikskólinn Undraland

starfar samkvæmt lögum nr. 90/2008 og skólastefnu Hrunamannahrepps, með aðalnámskrá leikskóla (2011) sem leiðarvísi.

Lykilhugtök í starfi eru nám leikskólabarna, ígrundun, lýðræði/valdefling og náttúra, þar sem nærumhverfið er nýtt markvisst í námi.

Einkunnarorðin Umhverfi – Umhyggja endurspegla notkun náttúrunnar í námi og hlýlegt, umhyggjusamt umhverfi barna.

Hugmyndafræði skólans byggir á kenningum Loris Malaguzzi, sem taldi börn hæfileikarík og menntun samfélagslegt ferli, Lev Vygotsky um félagslegt nám og þroskasvæði barna og Mihaly Csikszentmihalyi um flæði, þar sem börn upplifa djúpa þátttöku og einbeitingu.

Í öllu starfi er stuðst við snemmtæka íhlutun í máli og læsi til að greina og styrkja málþroska snemma.

Jákvæður agi er leiðarljós í uppeldi og byggir á virðingu, ábyrgð, samkennd og lausnamiðaðri nálgun þar sem mistök eru tækifæri til náms. Lögð er áhersla á hlý og ákveðin samskipti, þátttöku barna í lausnaleit og reglulega barnafundi sem efla samvinnu, sjálfstjórn og jákvæð samskipti. Kjarni starfsins er að styðja börn í að þroska sjálfstæði, félagsfærni og tilfinningalega velferð í öruggu og hvetjandi umhverfi.

Útikennsla

Leikskólinn Undraland hefur lengi lagt áherslu á öflugt og fjölbreytt starf í útikennslu.
Staðsetningin á Flúðum er einstaklega heppileg, því allt umhverfið okkar býður upp á ótal tækifæri til náms, leiks og uppgötvana.


Við nýtum marga spennandi staði í nágrenninu. Kvenfélagsskógurinn er okkar mest notaði vettvangur þar sem börnin fá að upplifa náttúruna með öllum skynfærunum – Þar er hægt að hlaupa, klifra, skoða plöntur og skordýr. Við verjum einum heilum degi þar á hvorri önn, borðum hádegis mat, tökum hvíld úti og þau sem sofa, sofa í vögnunum sínum og í tjaldi. Í kaffitímanum eldum við brauð á priki, samlokur, pönnukökur, eða poppum í elsdstæðinu.

Við förum líka að Litlu-Laxá og Hellisholtalæknum, þar sem börnin rannsaka vatn, fylgjast með lífríki og leika sér. 
Fjallgöngur eru reglulegur hluti af starfinu – þar lærir hópurinn að vinna saman, styrkja úthald og tengjast nærumhverfinu.

Í nágrenni við leikskólann er svo hverasvæði, þar sem við höfum soðið egg og bakað rúgbrauð.
Svona getum við tengt saman náttúru, menningu og samveru á skemmtilegan hátt.

Við nýtum líka aðra vettvanga í nærsamfélaginu. Á fótboltavellinum fá börnin útrás í hreyfileikjum og í Lækjagarðinum njótum við samveru við eldstæði, vinnum verkefni, hoppum á ærslabelgjum og rennum í aparólunni.

 

Úti skapast fjölbreyttar aðstæður til samtals, lýsingar og tjáningar.
Starfsmenn eru duglegir að grípa hugsanir barnanna til að ræða hvað er að gerast í náttúrunni eins og t.d. hvað verður um vatnið sem rennur niður götuna í rigningunni.

Rannsóknir sýna að útikennsla eykur áhuga, virkni og sjálfstæði barna sem styður vel við þroska þeirra. 

Frjáls leikur

Frjáls leikur er ein af grunnstoðum leikskólastarfs og gegnir lykilhlutverki í þroska, vellíðan og námi barna. Í leikskólanum gefst börnum tækifæri til að velja sér leik út frá eigin áhuga, getu og þörfum, og ráða sjálf ferðinni án þess að fullorðnir stýri leiknum. Þessi tegund leiks byggir á innri hvöt barna og skapar rými fyrir sköpun, ímyndunarafl og sjálfstæða hugsun. Í frjálsum leik glíma börn við fjölbreytt verkefni sem efla félags- og tilfinningaþroska. Þau læra að semja um reglur, deila, bíða eftir að það komi að sér, setja sig í spor annarra og leysa ágreining á uppbyggilegan hátt. Þar með styrkist bæði sjálfstraust og hæfni til að eiga í samvinnu við aðra. Leikurinn er jafnframt áhrifaríkt tækifæri til að þróa mál og tjáningu, þar sem börn nota talað mál, látbragð og frásagnir til að skapa eigin heima og tilveru. Í þykjustuleik og öðrum leikjaformum eykst orðaforði þeirra, skilningur á samskiptum og hlutverkum í samfélaginu.

Frjáls leikur styður einnig við vitsmunaþroska barna. Í leik þróast rökvísi, orsakatengsl og hæfni til að leysa verkefni á skapandi hátt. Í kubbaleik, hlutverkaleik eða listsköpun þjálfast talning, rýmisgreind og hæfileikinn til að prófa nýjar lausnir. Líkamlegur þroski er jafnframt stór hluti af leiknum, í hreyfileikjum bæði úti og inni efla börn bæði gróf- og fínhreyfingar, samhæfingu og almenna heilsu.

Hlutverk kennara í frjálsum leik er að skapa öruggt, hvetjandi og fjölbreytt umhverfi þar sem öll börn geta blómstrað. Starfsfólk fylgist með leiknum, styður börn þegar þörf er á og tryggir að allir fái að taka þátt. Kennarar skipuleggja leikrými, bjóða upp á áhugavert efni og fylgjast með áhuga, þroska og námi barnanna. Þó svo að börnin stýri sjálf leiknum er stuðningur fullorðinna mikilvægur til að halda leiknum innihaldsríkum og aðgengilegum fyrir alla.

Í Aðalnámskrá leikskóla er leikurinn skilgreindur sem helsta námsleið barna og í frjálsum leik fléttast saman allt það nám sem leikskólinn byggir á s.s. málþroski, stærðfræði, samfélags- og náttúrulæsi, sköpun og listir. Þess vegna er frjáls leikur ekki aðeins skemmtilegur, heldur nauðsynlegur fyrir heildrænan þroska barna. Við leggjum mikla áherslu á að frjálsi leikurinn hafi rými í leikskólanum, þar sem hann veitir börnum ómetanleg tækifæri til að læra, þroskast og njóta samveru með öðrum.