Karellen

Kynningarmyndband Blær

Vinátta byggist á nýjustu rannsóknum á einelti og á ákveðinni hugmyndafræði og gildum sem mikilvægt er að séu samofin öðru starfi þeirra skóla sem vinna með efnið. Auk þess byggir Vinátta á raunhæfum verkefnum fyrir nemendur, starfsfólk og foreldra. Þátttaka allra í þessu forvarnarverkefni er grundvöllur þess að vel takist til. Gert er ráð fyrir að þátttakendur tileinki sér þessi grunngildi við vinnu og í samskiptum innan skólasamfélagsins. Hugmyndafræðin endurspeglast í eftirtöldum fjórum gildum:

Umburðarlyndi

Að viðurkenna og skilja mikilvægi og gildi fjölbreytileikans og að koma fram við alla aðra af virðingu.

Virðing
Að viðurkenna og taka tillit til allra barnanna í hópnum, að vera öllum góður félagi og að virða margbreytileikann innan hópsins.

Umhyggja
Að sýna öllum börnum áhuga, samkennd, samlíðan og hjálpsemi. Að hafa skilning á stöðu annarra.

Hugrekki
Að þora að láta til sín heyra og geta sett sér mörk. Að vera hugrakkur og góður félagi sem bregst við óréttlæti.

Í Vináttu er lögð áhersla á fyrirbyggjandi aðgerðir, samkennd, umhyggju, vináttu og vellíðan og efnið er því forvarnarverkefni gegn einelti. Vinátta nýtist þannig í því hlutverki skóla að stuðla að almennri menntun barna með áherslu á félags- og tilfinningaþroska og hæfni þeirra til að takast á við áskoranir daglegs lífs.

Mikilvægt er að foreldrar þekki hugmyndafræði og gildi Vináttu og séu samstíga skólunum í aðgerðum til að fyrirbyggja einelti. Því er mikilvægt að foreldrahópurinn setji sér sameiginlegar reglur eða viðmið hvað varðar heimboð og afmæli. Það er ekki einungis mikilvægt til að koma í veg fyrir útilokun heldur einnig til að setja viðmið svo sem um æskilegan aldur hvað varðar afmælisboð og fleira sem snertir öryggi og velferð barnanna.

Börn læra það sem fyrir þeim er haft og aðgát skal höfð í nærveru sálar eru orðatiltæki sem eru í góðu gildi. Því skiptir miklu máli að þeir fullorðnu séu fyrirmyndir barnanna í orði og verki og þeir gæti að því hvernig þeir tala um önnur börn og foreldra þeirra í návist barna sinna. Þá er mikilvægt að hafa í huga að börn bera ekki ábyrgð á þeim aðstæðum sem þau búa við og ekki á að mismuna þeim sökum þess.


Kynningarmyndband um Vináttuverkefni


© 2016 - 2024 Karellen